Borghildur Óskarsdóttir

Staðsetning: Laufásvegur 3

Ég var svo heppin að fá lánað albúmið hennar Magnþóru. Myndirnar í albúminu voru teknar í garðinum á Laufásvegi 3, á árunum 1920 til 1946. Fólkið stillti sér upp og horfði í ljósopið, til okkar. Á öllum myndunum sést eitthvað í húsið og ein er tekin sérstaklega af sjálfu húsinu. Þar sést einnig nánasta umhverfið, þétt byggð ólíkra húsa; þorp, sem enn í dag er að mestu eins og það leit út þegar myndirnar voru teknar.

Vorið 1917 þegar Magnþóra flutti á Laufásveg 3 var hún 26 ára hárgreiðslukona, einstæð móðir átta ára drengs. Foreldrar hennar, Magnús Gunnarsson skósmiður og kona hans Þóra Ólafsdóttir, höfðu keypt húsið þetta vor. Áður höfðu þau átt heima í Miðstræti 10 ásamt Guðlaugu eldri dóttur þeirra og manni hennar Bjarna frá Vogi. Magnþóra kynntist eiginmanni sínum Guðmundi Guðmundssyni kaupmanni um 1920 og flutti hann til fjölskyldunnar á Laufásvegi 3.

Ég dreg gamla sögu fram í dagsljósið, set hana á stall, og tengi við umhverfi sitt í nútímanum. 15 myndir með texta prentað á álplötur. Textinn er frásögn í fyrstu persónu, þ.e. ég segi sögu í orðastað Magnþóru.

Upplýsingar eru aðallega fengnar frá Sveindísi og Guðlaugu. Þær eru yngstu langafa og langömmu börn þeirra Magnúsar og Þóru.