Anna Jóa

Staðsetning: Laufásvegur 64a

Syðri endi Laufásvegar státar af formhreinum fúnkishúsum og gróðursælum görðum – og lumar á suðrænni aldingyðju.

Fúnkishúsin

Fyrstu fúnkishúsin í götunni voru reist um og upp úr 1930 en þau eru kennd við fúnksjónalisma í byggingarlist þegar horfið var frá klassískum hefðum, þ.m.t. skreytistíl og symmetrískum áherslum, en þess í stað lögð áhersla á rýmisnýtingu og björt og heilsusamleg húsakynni. Fúnkishús einkennast af hreinum, óbrotnum flötum, samspili láréttra og lóðréttra lína, og flötum þökum. Hér á landi viku flöt þök fyrir hallandi valmaþaki sem hentar betur íslenskum aðstæðum. Horngluggar fúnkishúsanna voru nýjung á sínum tíma sem rakin var til nýrrar byggingartækni er bauð upp á aukið frelsi við hönnun.

Sigurður Guðmundsson arkitekt teiknaði mörg húsanna í götunni, má þar nefna hús númer 70 og 68 sem reist voru 1928 og 1934. Í síðarnefnda húsinu mun franski forsetinn Pompidou hafa átt næturstað á sínum tíma. Það er íslenskt sérkenni fúnkisstílsins að nota innlendan steinmulning og skeljabrot utan á húsin en það ljær þeim gráan lit, auk þess að verja steypuna gegn veðrum og vindum. Sem dæmi má nefna hrauningu á húsi númer 64 og 64a sem teiknað var af Gunnlaugi Halldórssyni og reist 1937. Gunnlaugur teiknaði líka númer 66, hús sem reis 1938 og var steinað með kvartsi og tinnu. Hraunuðu húsin hafa verið máluð, dæmi um það er hið stílhreina hús númer 62 sem teiknað var af Sigurði Guðmundssyni og reist 1934. Hús númer 72 er í síðfúnkisstíl frá 1953, teiknað af Hafliða Jóhannssyni, en eigandi þess arfleiddi forsetaembættið að húsinu og því má segja að margt fyrirmennið hafi gist á Laufásveginum í gegnum tíðina.

Gróðurinn

Garðarnir við Laufásveginn eru skjólgóðir og ræktarlegir. Gróðrarstöðin í Reykjavík var starfrækt á horni Laufásvegar og Hringbrautar til 1932 og nutu garðarnir í hverfinu góðs af því. Af trjám ber mikið á silfurreyni en þess má geta að hjónin og listmálararnir Kristín Jónsdóttir og Valtýr Stefánsson, sem bjuggu við Laufásveg 69, settu þar niður fjallagullregn og eplatré. Á fjórða áratugnum urðu mót náttúru og menningar Kristínu að yrkisefni í málverkinu Við Laufásveginn. Annar þekktur listmálari, Jóhannes S. Kjarval, leigði um tíma herbergi á Laufásvegi 63 – og greiddi leiguna með Þingvallamynd er rataði sem brúðargjöf á vegg yfir stofusófa í næstu götu. Sköpunarkrafturinn í götunni blómstaði við enda Laufásvegar, þar sem er hinn indæli Einarsgarður, nefndur eftir Einari Helgasyni garðyrkufræðingi sem bjó í Hallskoti (Laufásvegur 74). Einar fékk um aldamótin 1900 styrk frá Alþingi til að kynna sér trjárækt, skjólrækt og garðlist í Skandinavíu, en um það leyti hafði hér vaknað áhugi á „prýkkun“ bæjarins. Einar veitti Gróðrarstöðinni forstöðu og þar voru gerðar ýmsar tilraunir í jarðrækt. Þarna var fyrsta blómabúðin í Reykjavík og í gróðurhúsum ræktaði Einar suðrænar plöntur. Tilraunastarfsemin breiddist út í hverfið, oft með góðum árangri. Sögur fara af börnum hér á árum áður sem höfðu ekki undan í jarðarberjaáti í nágrannagörðunum og gripu til þess ráðs að frysta góssið.

Verndargyðjan

Eins og aðrar götur í miðbænum geymir þessi hluti Laufásvegar ótal minningar. Sumar þeirra eiga rætur í fornöld eins og styttan Pomona ber með sér. Pomona var rómverskættuð aldingyðja, verndari gróðurs, og stytta af henni eftir danska myndhöggvarann Johannes C. Bjerg var reist í Einarsgarði þar sem hún vakir enn yfir gróðrinum. Olli það talsverðu uppnámi fyrir alllöngu er Pomona var morgun nokkurn klædd í undirföt. Dagblöðin slógu málinu upp sem hneyksli og gátu sér þess til að þar hefði níðingur verið að verki. Raunin er sú, að framtakssöm börn í hverfinu höfðu svo ríka velsæmiskennd að þeim þótti við hæfi að skýla nekt Pomonu. Þess má geta að börnin höfðu talsvert fyrir því að klippa sundur fötin og sauma utan á styttuna (flíkurnar voru fengnar úr fataskáp móður sem furðaði sig ekki aðeins á brotthvarfi undirfatnaðarins heldur einnig á dularfullum jarðarberjum í frystinum). Um tíma stóð til að sneiða vænan hluta af Einarsgarði vegna fyrirhugaðrar byggingar nýs Landspítala, og þrengja að Pomonu sem horfir dreymnum augum til Bláfjalla – líkt og Kristín listmálari í málverki sínu. Samtakamáttur og mótmæli íbúa í hverfinu – og ef til vill forn verndarmáttur Pomonu – urðu til þess að fallið var frá skerðingu á garðinum, en þó er hætt við að steinsteypan muni byrgja Pomonu sýn. Enn hafa börn í hverfinu gaman af því að heilsa upp á þessa suðrænu verndargyðju og lána henni húfu sína í rysjóttu veðri.

-Anna Jóa

The south end of Laufásvegur is characterized by functional grace in it’s architecture, and by delightful gardens- it even boasts a fruit goddess of southern orgin.