Ólöf Björg Björnsdóttir

Staðsetning: Skólavörðustíg 38

Verkið Karllæg örvænting konunnar er unnið út frá þeirri kenningu Søren Aaby Kierkegaard um kynbundna angist um sjálfið, að það að vilja vera sjálf sé karllæg örvænting á meðan það að vilja ekki vera sjálf sé kvenlægt. Verkið fjallar um „sjálf“ í þeim skilningi „karllægrar“ örvæntingar að vilja vera sjálf.

En hvað er sjálf? Sjálfið er margslungið og marglaga, á í innri tengslum við sig sjálft og ytri tengslum við önnur sjálf. Það er ekki bundið kyni eða hörundslit heldur persónulegum karakter, samtvinnun líkama og anda. Kannski er það heldur ekki einhlítt: Hversu stórt er Við-ið í Ég-inu? Hvað erum við meira en eigin sögur og annarra sem við kjósum að trúa? Skyldu konur vera almennt með stærra Við í Ég-inu vegna umönnunarhlutverka sem þær gangast við?

Hugarfar, reynsla og áhugasvið hafa áhrif á persónulegan vöxt sjálfsins. Oft er þó angistin nauðsynleg til þess að sjálfið vaxi, til þess að við hreyfumst, mótumst eða „endurfæðumst“ á líf-tíma okkar. Þegar við lítum inn á við er okkar eigin „sónar“ endurskoðun sem getur falið í sér tækifæri á leiðréttingu.